Skylduskrif dagsins

Fékk sms áðan frá kunningja: ekkert nýtt blogg? Maður getur nú ekki brugðist dyggum lesendum. Hef nú ekki trú á að þessi færsla eigi eftir að fjölga lesendum, en ég lofaði. Fór í viðtal í morgun hjá lækninum mínum. Það var uppbyggilegt og gott, en þar sá ég að óþolinmæði mín stendur mér fyrir þrifum á leið minni til bata. Henni fannst ég í mun betra jafnvægi en á síðasta fundi, en mér fannst ekkert hafa breyst. Vorum þó sammála um að svefninn þyrfti að laga. 'I dag hefur mér liðið eins og geltum fola: Það bara vantar eitthvað! Það er skrítið að geta ekki dempað niður hugsanir sínar með góðu móti. Hugurinn er á fullu útí eitt en hver einasti vöðvi líkamans öskrar á svefn eins og offitusjúklingur á vínarbrauðslengju. Nú ætla ég að fá mér te, setjast í jógastellingu á gólfið og stilla á gufuna, hlýtur að virka. Annars var ég með líffræðikennara í Fsu sem hét Örn, honum tókst alltaf að svæfa mig, ætli hann sé til á teipi?

Hetja?

Mér hefur verið gefin nafngiftin hetja af mörgum síðustu daga. Mér hugnast ekki vel að vera sæmdur þessari nafnbót, þar sem fjarri sannleikanum er sennilega ekki hægt að komast. 'Astæðan fyrir því að ég hef ákveðið að fara þá leið að tjá hugsanir mínar opinberlega, er afar eigingjörn. Mér líður bara miklu betur þegar ég er búinn að ýta á vista og birta takkann. Það má ekki gleymast að ég klúðraði mínu sambandi sjálfur án mikillar utanaðkomandi aðstoðar og skapaði mér þetta víti að langmestu leyti sjálfur. 'Utí þessa vegferð fór ég ekki með það að augnamiði að hjálpa öðrum, en hinsvegar gleður það mig ósegjanlega þegar ég heyri frá fólki sem segir skrif mín hafa hjálpað því í baráttu við sína djöfla.  Mér var á dögunum bent á að skrá mig inná einkamál.is. Það finnst mér ekki heillandi tilhugsun. 'Eg er afar gamaldags og tel ekki líklegt að ég finni ástina inná þesslags miðlum. 'Eg er búinn að kíkja á þessar síður og get ekki sagt að ég sé nokkru nær um þær konur sem þar eru. Þær hafa allar áhuga á ferðalögum, útivist og samveru með vinum. Hver hefur ekki gaman að þessum hlutum? Hvernig ætti auglýsing mín inná einkamál.is að líta út? Fráskilinn 34 ára gjaldþrota 3 barna faðir með vott af geðveilu óskar eftir að komast í kynni við konu á svipuðu reki. Hefur áhuga á ferðalögum, útivist og samverustundum með börnunum sínum og vinum. Fengi eflaust marga smelli á auglýsinguna sem myndi fjölga eftir að mynd af 172cm háum manni sem er soldið yfir kjörþyngd, myndi birtast. (þetta með þyngdina á reyndar ekki við núna þar sem geðveilukúrinn hefur reynst afar árangursríkur) Nei ég vil nú frekar hitta konur undir eðlilegum kringumstæðum, hverjar sem þær nú eru. Það er mér svosem ekki efst í huga um þessar mundir að ná mér í konu, en ef ég þekki sjálfan mig rétt þá er ekki langt í að maður fari útá galeiðuna. 'Eg er með marga sjálfskipaða ráðgjafa í þessum málum sem hringja reglulega í mig til að ráða mér heilt í þessum málum. Ef ég dreg saman það sem þeir hafa ráðlagt mér, þá ætti ég að klæðast bleikri skyrtu og fara á skemmtistaðinn Spot í Kópavogi. Stelpur! Passið ykkur á litla gaurnum í bleiku skyrtunni sem verður á Spot næstu helgi. 'Eg veit það nefnilega fyrir víst að hann er klikkaður.

Svefn án lyfja

Eftir að hafa liðið um ganga ikea í gær, þar sem ég var eins og Megas með fílahirðinn frá Súrin upp á arminn jóðlandi Lórelei í huganum, sofnaði ég um 2 leytið án hjálpar lyfja. Þó ég geri mér grein fyrir því að klukkan er ekki orðinn 8 þegar þessi texti er ritaður þá er ég eins og lítið barn sem stendur í lappirnar í fyrsta sinn, það byrjar ekki að hlaupa. Það stendur vaggandi og riðandi áður en það telur í sig kjark til að taka fyrsta skrefið. Eftir að fyrsta skrefið hefur verið tekið líður ekki á löngu þar til hlaupin taka við. 'I dag skal farið í ræktina, spilað golf með krökkunum og horft á Steven Gerrard lyfta enska bikarnum nú síðdegis. Þessi dagur á enga möguleika á öðru en að verða góður. Veðrið er fallegt og útí garði heyrast mér máríuerlan og starrinn vera að kveðast á. Annars er ég ekki sérlega glöggur fuglahljóð en máríuerlan á þarna í hlut, það er ég viss um. Það er mjög skrítið að sofa lítið og vera aldrei þreyttur, ekki endilega slæmt, en skrítið. 'Eg hef nú svo sem aldrei þurft mjög mikinn svefn en hef þó viljað ná 7 tímum að meðaltali. En það er stórt skref að ná að sofna án lyfja. Þegar ég var að svæfa börnin í gær, hugsaði ég með mér að ef ég gæti ekki rifið mig uppúr þessu fyrir þau, sem eru það fallegasta og besta sem guð eða guðríður eins og ég held að æðri máttarvöldin séu kölluð um þessar mundir,hafa skapað, þá er þér bara ætlað að vera í föndri og kyrrðarstund á 32d. 'Eg lýk þessum vangaveltum á orðum sem dóttir mín hefur notað til að peppa sig uppí hitt og þetta: 'Eg get, ég nenni, ég vil! 

Manía í IKEA

Það er ekki hægt að segja annað en að það geti verið broslegt að vera soldið klikkaður. Fór til Reykjavíkur í dag í hálfgerðu maníukasti. Var með afbrigðum léttur í lund og broshýr. Fór og keypti uppþvottavél og þvottavél,ætlaði að kaupa sjónvarp en þegar ég sá það mundi ég að það er bannað að flytja kuml á milli sveitarfélaga, svo gamalt var það. Keypti mér nýjan golfpoka og kylfur handa litlu prinsessunni minni. Fór fyrir mína fyrrverandi í gleraugnaverslun að kaupa linsur. Konan í búðinni spurði hvaða styrkleiki ætti að vera á linsunum, ég sagði henni það og spurði hvort það færi ekki betur á því að fólk með þetta lélega sjón fengi sér hvítan staf? Henni þótti ég annaðhvort spaugilegur eða brjóstumkennanlegur og gaf mér 25 % afslátt af herlegheitunum. Næst var ferðinni heitið í ógnvænlegustu stórverslun á 'Islandi, jú IKEA. 'Eg hafði verið svo forsjáll í gærkvöldi að skrifa niður vöruheitin á öllu sem ég ætlaði að versla. Þetta voru kannski 10 hlutir, mest eitthvað sem vantaði uppá í eldhúsinnréttinguna. 'Eg fór því rakleitt í eldhúsdeildina og greip þar ungan dreng af asískum uppruna(hmmm þetta hljómar kannski ekki alltof vel). Allavega þá sagði ég piltinum að ég væri úr sveit og að mér myndi líklega ekki endast þessi dagur og tæplega sá næsti ef ég ætti að leita uppi alla þessa hluti. Drengurinn,rétt eins og konan í gleraugnabúðinni, kenndi greinilega í brjósti um þennan óðamála stórskrýtna sveitamann og leiddi mig í gegnum þetta völundarhús eins og ég væri ómálga barn. Þær fáu ikea ferðir sem ég fór í með barnsmóður minni, reyndu ákaflega mikið á sambandið. Ekki ætla ég nú að ganga svo langt að segja að þær hafi verið skilnaðarorsök, en ekki mjög fjarri því. Þarna sveif ég um þetta stórhýsi leiddur af asískum pilt, og leið vel. Það liðu 15 mínútur frá því ég gekk inní búðina þar til ég var kominn út með vörurnar. 'I ikea fer ég aldrei framar inn öðruvísi en í andlegu ójafnvægi. En það sem stendur eftir eftir þennan dag, er það að mér leið vel með það að vera að stússast einn í því að versla fyrir mitt heimili. Munurinn á konum og körlum í ikea er mjög greinilegur og það sá ég á vesalings mönnunum sem drösluðust með kerrurnar á eftir kaupglöðum spússum sínum sem þurftu að skoða og snerta flest það sem fyrir augu bar. Svo við vöðum nú úr einu í annað,eins og mér hefur verið sérlega tamt síðustu daga, þá sá ég mjög skemmtilegt kvenmannsnafn á fésbókinni í gær. Það er nafnið Lórelei. Mikið óskaplega held ég að það sé gaman að heita nafni sem hægt er að jóðla. Síðustu daga hef ég fengið nokkra pósta frá fólki sem hefur lent í einhverjum andlegum veikindum og það fólk hefur hvatt mig til að halda ótrauður áfram með skrifin, og það ætla ég að gera.

Bataferlið 2 hluti

Mikið óskaplega er þetta fallegur morgun hér í tungunum. Blár og heiður himinn, fuglarnir í söngvakeppni og ilmurinn af vorinu fyllir vitin. Eins og ég gat um í ummælum við einhverja færsluna mína hér, þá hef ég fengið álíka margar áskoranir um að skrifa bók og 'Astþór hefur fengið um að bjóða sig fram til forseta. 'Eg gæti nefnilega vel hugsað mér að vera rithöfundur. 'Eg gæti vaknað þegar mér sýndist, farið út og andað að mér vorinu, farið í golf og fengið andann yfir mig á 19 holunni. Skroppið og skrifað í klukkutíma, farið í ræktina, komið aftur heim og skrifað í annan klukkutíma, kíkja svo kannski á pöbbarölt. Nú eru eflaust margir hugsi. Pöbbarölt? Maðurinn býr í Reykholti ásamt 20 öðrum hræðum. Já, ég er nefnilega með 2 kaffihús/pöbba í skriðfæri við mig. En um hvað ætti ég að skrifa? Ekki sjálfan mig, því að þegar ég er ekki í bardaga við geðveilu eða eitthvað þaðan af verra, þá er lítið gaman að mér. 'Eg gæti skrifað sannar sögur af pabba, en það yrði náttúrulega að skrifast fyrir leikhús. Farsar koma nefnilega alltaf betur út á sviði en á prenti. Gæti ég skrifað skáldsögu. Já það gæti ég svo vel. En myndi einhver nenna að lesa það? Jú hugsanlega ef geðrof mitt dregst á langinn. 'Eg á nefnilega auðvelt með að koma orðum mínum og hugsunum á hvítann skjáinn í þessu ástandi. Margir af merkustu listamönnum sögunnar hafa glímt við einhverskonar geðveilu og skapað fallegustu verk listasögunnar í geðrofi. Van Gogh, Salvador Dali, Picasso og Oscar Wilde. Þetta eru nú bara örfá dæmi, en þau eru mun fleiri. Þráinn Bertelsson var eitt sinn spurður að því hver væri galdurinn að  því að gera svona skemmtilegar myndir. Hann sagði það auðvelt: Þú tekur venjulegt fólk og setur það í óvenjulegar aðstæður. Mikið til í þessu hjá kollega mínum. Svo er líka hægt að setja óvenjulegt fólk í venjulegar aðstæður. Hver myndi td ekki vilja sjá 'Astþór Magnússon þvo bílinn sinn, eða Jón Gnarr segja eitthvað af viti. Ha ha ha. Vissulega fyndin tilhugsun. Að vel ígrunduðu máli hef ég ákveðið að vippa lopatreflinum um hálsinn og skottast niður á kaffi klett og athuga hvort hún Steina geti ekki vippað í eins og einn latte bolla.

Bataferlið

Hver dagur er aðeins betri en sá fyrri. 'Eg held að ég sé að feta brautina í rétta átt, í stað þess að spóla mig fastann á krossgötum. Mér er efst í huga á þessum fallega degi þakklæti. Þakklæti til allra sem hafa með ráðum og dáðum stutt mig í gegnum þessar raunir. Vissulega eru ekki allir sammála þeirri nálgun minni á vandamálið að tjá mig um það á opinberum vettvangi. 'Eg virði þær skoðanir, en held mig engu að síður fast við að hafa þennan háttinn á. Það hefur hjálpað mér mikið í baráttunni að koma hugsunum mínum óritskoðuðum útí heiminn. Hver hefur sinn háttinn á í svona málum og þetta er minn. Þetta hjálpar mér og vonandi fleirum sem lesa þetta, að takast á við fordóma gagnvart geðsjúkdómum. 'Eg er ennfremur sáttur við þá leið mína að leita mér hjálpar til að koma skikki á mínar brengluðu hugsanir og vangaveltur. Nú hef ég fengið uppí hendurnar ákveðin verkfæri til að takast á við þau vandamál sem kunna að koma upp síðar á lífsleiðinni. Eins og ég gat um fyrr í textanum, er ég fullur þakklætis í garð fjölskyldu, vina og vandalausra sem hafa stutt mig með fallegum orðum og hlýjum kveðjum. 'Eg er einnig þakklátur barnsmóður minni fyrir að hafa veitt mér þær guðsgjafir sem börnin okkar eru. Einnig vil ég þakka henni fyrir þau 12 og hálft ár sem hún þó umbar mig. Það ber um vott hennar mikla innri styrk að það skuli vera ég en ekki hún sem sit hér og skrifa þetta. Með henni átti ég bestu ár ævi minnar þó oft hafi bátur okkar lent í ölduróti. Nú ætla ég að skella mér í ræktina og láta alla mína beiskju og reiði í minn garð og annara, bitna á lóðunum í 'Iþróttamiðstöðinni í Reykholti sem kvenfélagskonur hér í sveit voru svo elskulegar að greiða fyrir með nekt sinni. Takk fyrir það:)

Eftirköstin

Nú sit ég hér einn og hugsa um framtíðina, sem er nýtt. Fortíðin hefur átt hug minn allan síðustu mánuði. 'I fyrsta sinn í nokkra mánuði finnst mér vera framtíð. Hvað ber hún í skauti sér? Ekki veit ég það. Verð ég alltaf einn? Verður þetta eitthvað skárra? Er þetta bara svona? Er botninum náð? Þetta eru spurningarnar sem ég hef spurt mig stöðugt að síðustu daga og vikur.  'Eg hélt í einfeldni minni að öllum væri sama um mig, en hef illu heilli komist að því að svo er alls ekki. Kerfisbundið hef ég reynt að brjóta sjálfan mig niður og allt sem ég hef gert fram að þessu. Er mér ekki viðbjargandi? Jú, kannski. Er eðlilegt að fá taugaáfall eftir skilnað? Nei, það er ekki eðlilegt en það getur gerst. Er eðlilegt að sjá ljósið í enda ganganna í móðu? Já, sennilega. Hvað gerir maður sem lendir í svona krísu? Hann leitar sér hjálpar. Sumum spurningunum þykist ég kunna svarið við en það er ótal spurningum ósvarað. Við þeim spurningum leita ég svars. Eru sannir vinir bara vinir þegar þeir mega vera að því, eða eru það þeir sem henda öllu frá sér til að aðstoða vin? Fór til læknis í dag í klukkustundarviðtal sem gerði mér virkilega gott. Hún náði á þessari klukkustund að kenna mér að skilja hismið frá kjarnanum. Hvað er hismið og hvað er kjarninn? Hismið eru viðhlæjendurnir sem alltaf eru tilbúnir að vera til staðar þegar allt gengur vel, en kjarninn eru þeir sem eru ekki endilega til staðar þegar allt er í sómanum, en stíga upp þegar hlutirnir stefna á versta veg. Sumir sem lesa þetta gætu haldið að ég sé að vanþakka það sem ég hef fengið frá hysminu og sé að upphefja kjarnann, en svo er ekki. Maður á vini sem standa með manni í blíðu og aðra sem standa með manni í stríðu. Svo eru aðrir sem eru tilbúnir að gera hvoru tveggja. Þegar upp er staðið þá þykir báðum þessum hópum vænt um mann og eru að reyna að hjálpa manni eins og þeir geta og það er ég þakklátur fyrir.

2 dagar með Englum alheimsins

Dagurinn er 29 apríl. 'Eg ligg í rúmi á sjúkrastofu 2.07 á deild 32d á landsspítalanum við Hringbraut. Stofan er stór með hvítmáluðum veggjum, stórum gluggum sem snúa út að innganginum í bygginguna og gulum gardínum með laufblöðum sem einver af fyrri gestum hér, hefur látið reiði sína bitna á. Mig undrar það ekki, svo ljótar eru þær. Hjúkrunarkonan spyr hvort það sé óhætt að skilja mig  einan eftir. 'Eg svara því játandi og segi henni að það sé fyrir neðan mína virðingu að hengja mig í svona ljótum gardínum, þó að sjálfsvirðingin sé í sögulegu lágmarki. 'Eg gæti svo sem dundað mér við það að plokka flögnuðu málninguna af veggjunum og éta hana,en ég hugsa að ég myndi lifa marga sem þetta  lesa með þeirri aðferð. Hjúkkan tekur mig trúanlegan og yfirgefur stofuna. 'Eg ligg og stari útí loftið. 'I höfði mínu ómar " Stórir strákar fá raflost" með Bubba. 'Ur stofu á ganginum byrjar "fljúga hvítu fiðrildin" að hljóma. Ef ég vissi ekki betur hefði ég haldið að konan sem framkallaði þessi hljóð hefði verið lögð inn vegna lagleysis. 'I gegnum hugann þjóta fjölmargar misgáfulegar hugsanir og ég kenni öllum öðrum en sjálfum mér um það hvernig fyrir mér er komið. 'Eg kemst þó að því eftir nokkurra  klukkustunda rússíbanareið um mitt helsjúka höfuð, að þetta sé alheimssamsæri þar sem  Jóhanna Sigurðardóttir sé sennilega forsprakki. Það er sunnudagur, og síðan á miðvikudag hef ég sofið í tíu tíma samtals. Um fimmleytið kemur síðhærður grannvaxinn maður í ljótum fötum, askvaðandi inn ganginn og stefnir á stofuna mína. 'Eg stífna allur upp og hugsa með mér að þarna sé á ferðinni geðsjúklingur sem ætlar að lumbra á mér. Hann rýkur inní herbergið og spyr hvort ég sé búinn að vera fullur í marga daga. Skjálfandi af hræðslu svara ég því neitandi, hann segir ok og í því kemur hjúkkan inn og ég hugsa með mér að nú verði ógnvaldurinn fjarlægður. Ætlaður geðsjúklingur byrjaði að þylja lyfjaheiti í hjúkkuna og segir henni að gefa mér "rotara" um kvöldið. 'Eg hugsaði með mér að þessi væri svona eins og Margeir Orri Einarsson úr sjónvarpsþáttunum Heimsendi. Mér til mikillar undrunar, jánkar hjúkkan því sem síðhærði maðurinn sagði, og þau gengu saman út. 'I hverju er ég lentur! Þetta er atburðarrás sem gæti vel verið skrifuð af Ragnari Bragasyni. Þegar ég var búinn að fá mér nokkra bita af einhverju sem líktist fisk í raspi, kom Sólmundur bróðir minn með föt handa mér. Hann er skemmtikraftur og stóð undir þeirri nafngift, því hann hafði greinilega eytt miklum tíma í fataskápnum sínum og reynt að finna geðsjúklingslegustu föt sem hann átti. Þegar Sóli er farinn bið ég gæslumanninn um að fá að fara í sturtu. Hann réttir mér handklæði og tannbursta og segir mér að taka tannburstann aftur með mér inná stofu þegar ég sé búinn, það sé nefnilega svolítið súr húmor hérna á deildinni. Þarf að segja meira? 'Eg fór inní reykkompu að fá mér síðustu rettu dagsins. Gæslumaðurinn réttir mér kveikjara en ég segist ekki þurfa hann því ég sé með eld. Hann segir mér að það sé stranglega bannað. 'Eg er ekki hissa á því. Það væri löngu búið að brenna gluggatjöldin ljótu ef eldfæri væru leyfð. 'Eg hafði meira að segja látið mér detta það í hug. 'Eg rölti fram í anddyri og rek augun í dagsskrá morgundagsins: Hádegismatur, kyrrðarstund, leikfimi, föndur og hópganga. 'Eg er einmitt að fara í göngutór með hóp af geðsjúklingum! Ye right! Eins og glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir, þá er þessi texti ritaður af manni í miklu andlegu ójafnvægi, með ríka fordóma fyrir gagnvart sínum eigin þjóðfélagshóp. Nei, höfundur textans er ekki Þráinn Bertelsson! Eitt af mörgum krefjandi verkefnum næstu missera er að vinna bug á þessum fordómum. Jæja, þá er "rotarinn" farinn að kicka inn. (geisp). Lifið (geð)heil.

 

Dagurinn er 30 apríl 2012

'Eg vakna á stofu 2.07 á deild 32d. 'Eg staulast fram um 7 leytið eftir ágætan 7 tíma svefn. 'Eg þarf að bíða til 8 eftir morgunmatnum. 'Eg les fréttablaðið spjaldanna á milli og gæði mér svo á volgum hafragraut og brauði með osti. 'Eg las blöðin og ráfaði um gangana þar til læknirinn kom og tók við mig viðtal. Þetta var snyrtilegur og ljúfur maður í hvítum slopp, annað en síðhærði rokkarinn frá í gær. Mér til mikillar furðu, segir hann mér í lok samtalsins að ég megi bara fara heim. Maðurinn er greinilega ekki starfi sínu vaxinn. Hann sendir mig í burtu með leiðbeiningar um hver næstu skref séu og eitt glas með slatta af svefnlyfjum. Hann sagði mér að ég þyrfti að koma nokkrum sinnum í viðtöl og ég ætti að fara að hreyfa mig. 'Eg er öfundsverður af mörgum því ég er með uppáskrifað af lækni að ég eigi að spila golf. 'Eg kvaddi lækninn og starfsfólkið með virktum og þakkaði þeim fyrir ánægjulega dvöl. Nú er ég vonandi staddur neðst í brekku og leiðin liggur uppávið. 'Eg vill þakka Föður mínum, stjúpu, móður, Sóla,Daða, vinnuveitendum og öðrum sem sent hafa mér kveðjur og hlýja strauma. Síðast en ekki síst vill ég þakka Birni Kjartanssyni vini mínum fyrir að leiða mig í rétta átt. Nú verður einn dagur tekinn fyrir í einu. 'Eg ætla að ljúka þessari dagbókarfærslu með orðatiltæki sem Hilmir afi minn greip oft til. Það verður hver að fljúga eins og hann er fiðraður;)


« Fyrri síða

Um bloggið

Sigurður Magnús Sólmundsson

Höfundur

Sigurður Magnús Sólmundsson
Sigurður Magnús Sólmundsson
Höfundur er fráskilinn þriggja barna faðir í Biskupstungum. Uppalinn Hvergerðingur. Helstu áhugamál eru samvistir við börnin mín og golf. Er forfallinn Liverpool aðdáandi.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband