Manía í IKEA

Það er ekki hægt að segja annað en að það geti verið broslegt að vera soldið klikkaður. Fór til Reykjavíkur í dag í hálfgerðu maníukasti. Var með afbrigðum léttur í lund og broshýr. Fór og keypti uppþvottavél og þvottavél,ætlaði að kaupa sjónvarp en þegar ég sá það mundi ég að það er bannað að flytja kuml á milli sveitarfélaga, svo gamalt var það. Keypti mér nýjan golfpoka og kylfur handa litlu prinsessunni minni. Fór fyrir mína fyrrverandi í gleraugnaverslun að kaupa linsur. Konan í búðinni spurði hvaða styrkleiki ætti að vera á linsunum, ég sagði henni það og spurði hvort það færi ekki betur á því að fólk með þetta lélega sjón fengi sér hvítan staf? Henni þótti ég annaðhvort spaugilegur eða brjóstumkennanlegur og gaf mér 25 % afslátt af herlegheitunum. Næst var ferðinni heitið í ógnvænlegustu stórverslun á 'Islandi, jú IKEA. 'Eg hafði verið svo forsjáll í gærkvöldi að skrifa niður vöruheitin á öllu sem ég ætlaði að versla. Þetta voru kannski 10 hlutir, mest eitthvað sem vantaði uppá í eldhúsinnréttinguna. 'Eg fór því rakleitt í eldhúsdeildina og greip þar ungan dreng af asískum uppruna(hmmm þetta hljómar kannski ekki alltof vel). Allavega þá sagði ég piltinum að ég væri úr sveit og að mér myndi líklega ekki endast þessi dagur og tæplega sá næsti ef ég ætti að leita uppi alla þessa hluti. Drengurinn,rétt eins og konan í gleraugnabúðinni, kenndi greinilega í brjósti um þennan óðamála stórskrýtna sveitamann og leiddi mig í gegnum þetta völundarhús eins og ég væri ómálga barn. Þær fáu ikea ferðir sem ég fór í með barnsmóður minni, reyndu ákaflega mikið á sambandið. Ekki ætla ég nú að ganga svo langt að segja að þær hafi verið skilnaðarorsök, en ekki mjög fjarri því. Þarna sveif ég um þetta stórhýsi leiddur af asískum pilt, og leið vel. Það liðu 15 mínútur frá því ég gekk inní búðina þar til ég var kominn út með vörurnar. 'I ikea fer ég aldrei framar inn öðruvísi en í andlegu ójafnvægi. En það sem stendur eftir eftir þennan dag, er það að mér leið vel með það að vera að stússast einn í því að versla fyrir mitt heimili. Munurinn á konum og körlum í ikea er mjög greinilegur og það sá ég á vesalings mönnunum sem drösluðust með kerrurnar á eftir kaupglöðum spússum sínum sem þurftu að skoða og snerta flest það sem fyrir augu bar. Svo við vöðum nú úr einu í annað,eins og mér hefur verið sérlega tamt síðustu daga, þá sá ég mjög skemmtilegt kvenmannsnafn á fésbókinni í gær. Það er nafnið Lórelei. Mikið óskaplega held ég að það sé gaman að heita nafni sem hægt er að jóðla. Síðustu daga hef ég fengið nokkra pósta frá fólki sem hefur lent í einhverjum andlegum veikindum og það fólk hefur hvatt mig til að halda ótrauður áfram með skrifin, og það ætla ég að gera.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert frábær penni Siggi - endilega haltu þessu áfram. Með þessu hugafari nærðu bata fljótt - gangi þér vel ;-)

Ásta Rós (IP-tala skráð) 5.5.2012 kl. 10:28

2 identicon

"Þarna sveif ég um þetta stórhýsi leiddur af asískum pilt, og leið vel"

HLÁTUR!!! það má nú misskilja þetta með góðum vilja :)

Soffía Valdimarsdóttir (IP-tala skráð) 5.5.2012 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Magnús Sólmundsson

Höfundur

Sigurður Magnús Sólmundsson
Sigurður Magnús Sólmundsson
Höfundur er fráskilinn þriggja barna faðir í Biskupstungum. Uppalinn Hvergerðingur. Helstu áhugamál eru samvistir við börnin mín og golf. Er forfallinn Liverpool aðdáandi.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband